Um

Viskustykki.is er lista- og menningarvefur. Allt efni sem á honum birtist er unnið af nemendum Háskóla Íslands. Einkum í listfræði, safnafræði, hagnýtri menningarmiðun og hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Um er að ræða verkefni sem þessir nemendur hafa unnið í hinum ýmsu námskeiðum í sínu grunn- eða framhaldsnámi. Samkvæmt ritstjórnarstefnu viskustykki.is eru aðeins birt verkefni sem að mati kennara voru á meðal þeirra bestu í viðkomandi námskeiði.


Anna Guðfinna Stefánsdóttir er stofnandi og vefstjóri vefsins.

Anna Guðfinna Stefánsdóttir

 

„Ég lauk BA námi í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Ég mun ljúka MA námi í hagnýtri menningarmiðlun við sama skóla vorið 2015. Vefurinn viskustykki.is er hluti af lokaverkefni mínu í því námi.“


Nánar um tilurð viskustykki.is

Öllu námi í Háskóla Íslands fylgja ótal vinnustundir hjá nemendum við gerð ýmissa verkefna með tilheyrandi rannsóknarvinnu og framkvæmd. Þessum verkefnum er ýmist skilað á efnislegu formi í pósthólf kennara eða rafrænt; annað hvort með tölvupósti eða inn á lokað vefsvæði. Oftar en ekki er það einungis kennarinn sem sér viðkomandi verkefni. Þegar búið er að meta það til einkunnar, má segja að verkefnið dagi hreinlega uppi.

Sem nemenda í Háskóla Íslands hefur mér fundist miður að vinna nemenda og sú þekking sem hún skilar þeim, sé ekki sýnilegri og þannig öðrum til gagns. Innan skólans er í raun falinn fjársjóður – þekkingarbrunnur sem ekki er að nýtast sem skyldi. Þegar kom að því að velja lokaverkefni í MA námi mínu í hagnýtri menningarmiðlun, fannst mér því upplagt að gera bragarbót á þessu. Markmiðið væri að draga þessa þekkingu upp á yfirborðið og koma henni á framfæri á þann hátt að hún mætti vekja áhuga almennings ekki síður en háskólasamfélagsins. Greiðasta leiðin til að miðla þessu áfram er í gegnum vef. Þannig kom það til að hluti af mínu lokaverkefni er vefurinn viskustykki.is.

Vefurinn mun vonandi vaxa og dafna með tímanum. Nemendur Háskóla Íslands munu án nokkurs efa, halda áfram að gera frábær verkefni. Það er mín ósk að sem flestir nemendur sem gert hafa afbragðsgóð verkefni, muni birta þau hér öðrum til yndis og ánægju.