Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

0

Myndgreiningarverkefni 2: femínísk/kynjafræðileg greining
Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

Þetta verkefni er eftir Berglindi Helgadóttur og Katrínu Huld Bjarnadóttur

Creative Commons License Efnið er bundið höfundarétti eins og kveðið er á um hér: Creative Commons Attribution-NonCommercial 4.0 International License.

Í feminískri listgreiningu er listaverk greint útfrá sjónarhorni samhengis kvenna, hvort sem viðföng eða áhorfendur, og þeirra samfélags- og efnahagslegra aðstæðna sem verkið verður til í. Henni svipar til marxískrar listgreiningar en leggur frekari áherslu á lestur listaverksins út frá félagslega skilyrtri stöðu kvenna og hugmyndum um konuna innan og utan verksins.[1] Með því að beita jafnframt kynjafræðilegri greiningu á listaverk er hægt að víkka út greininguna svo að félagslega skilyrt staða  beggja kynjanna er skoðuð, bæði hvað varðar listaverkið sjálft sem og áhorfandann.[2]

Listamaður: Tiziano (Titian 1490-1576)

Titill: Venus frá Urbino

Ár: 1538

Miðill: Olía á striga

Stærð:  119 x 165 cm (3′, 11” x 5′, 5”)

Varðveislustaður:  Galleria degli Uffizi, Flórens, Ítalía.

Í Venus frá Urbino liggur í forgrunni nakin, ung kona á sófa, horfir í augu áhorfandans og hylur skaut sitt með annarri hendinni. Hún er staðsett í ríkulegu samtímaherbergi endurreisnartímans þar sem tvær þjónustukonur, staðsettar í efra hægra horni verksins, eru önnum kafnar við að finna til, úr íburðarmiklum kistlum, föt á hina nöktu konu. Í málverkinu eru aðeins konur utan sofandi hunds, sem hvílir við fætur „Venusar“ og er ekki hægt að kyngreina. Í félagslega skilgreinda samfélagsstöðu kvenna í málverkinu er þannig hægt að ráða í með því að rýna í birtingarmynd kvennanna í verkinu sjálfu en jafnframt því sem gefið er í skyn fyrir utan ramma verksins.

Málverkið Venus frá Urbino málaði feneyski listmálarinn Tiziano, árið 1538, eftir pöntun frá Guidobaldo II sem ári síðar varð hertogi af Urbino. Á tímum endurreisnarinnar var það kaupandi verks sem oft og tíðum lagði fyrir nákvæmar verklýsingar fyrir listmálarann sem leiddi til þess að listamaðurinn sjálfur hafði lítið um viðfangsefni verksins að segja eða jafnvel birtingarmynd þess.[3] Málverkið er talið hafa átt að vera til einkanota sem leiðir líkur að því að það hafi verið Guidobaldo sjálfur sem réði viðfangsefni verksins frekar en Tiziano sjálfur sem lagði til listrænt handbragð, útlit og yfirbragð verksins.[4] Sjónarhorn kvenlíkamans er því ekki einungis listmálarans heldur einnig, og jafnvel aðallega, þess sem verkið pantar. „Venus“ verður viðfang áhorfs karlmanna sem hún endurgeldur á óblygðulan hátt með augnaráði sínu.  Hún er sköpuð sem fullkomin ímynd eiginkonunnar enda átti hún að sýna þá kosti sem Guidobaldo mat í fari eiginkonuefnis.[5]

Hægt er að draga ályktanir, í myndbirtingu málverksins, að þeirri stöðu kvenna á endurreisnartímanum sem talin var þóknanleg í karlaveröld þess tíma. Þrátt fyrir ögrandi augnaráð, liggur „Venus“ afslöppuð, allt að letilega, á sófanum en óvirk, lárétt staða hennar ýtir undir hugmyndir um aðgerðaleysi kvenna.  Á endurreisnartímanum var erfitt fyrir konur að komast til metorða nema þær hefðu aðgang að auðæfum og völdum í gegnum feður eða eiginmenn sína sem urðu þó ávallt ásjónan út á við.[6]  Menntunarmöguleikar kvenna á þessum tíma voru takmarkaðir, bæði á forsendum fjárhags og kynjamismunar, og einskorðuðust við undirstöðuatriði í grunnfögunum þremur: lestri, skrift og reikning. Enda voru konum á þessum tíma ekki ætluð mikilvægari hlutverk en að giftast, verða nunnur eða þjónustustúlkur auk þess sem það þótti ekki við hæfi að konur yfirgæfu heimili sín til annarra erinda en að fara til kirkju. Þó var ætlast til þess að „hin fullkomna kona“ væri ekki einungis myndarleg og heillandi heldur einnig gáfuð en umfram allt átti hún að haga sér vel og uppfylla heimilis- og kirkjulegar skyldur sínar.[7]

Möguleiki er að túlka hlutverk og þýðingu myndbirtingar kvennanna í Venus frá Urbino út frá ríkjandi hugmyndum forræðisveraldar karla á Ítalíu á tímum endurreisnarinnar um „hina fullkomnu konu“. Aðalviðfangsefni verksins, „Venus“, er birtingarmynd eiginkonunnar í verkinu, þá sem Guidobaldo sóttist eftir. Ögrandi augnaráði hennar, sem beinist að áhorfandanum, vekur athygli á hlutgervingu nektar kvenna og þá hugmynd að nektin sé hlutur sem karlmenn skiptast á.[8] Augnaráðið er lýsandi fyrir persónuleika hennar sem heillandi, gáfuð kona samtímis og það undirstrikar tælingu hennar og erótíkina í verkinu. Líkamleg ásýnd hennar birtist mjúkum og ávölum líkama hennar með lýtalausri og ljósri húðinni sem áréttir hæfileika Tizianos í meðferð lita.

Á tímum endurreisnarinnar jókst áhugi á líkamanum sem leiddi til þess að nektin og erótíkin náðu nýjum hæðum í myndlist.[9] Í málverkinu er það ekki einungis nakinn líkami „Venusar“ og augnaráð hennar sem gefur erótískan undirtón heldur einnig staðsetning handar hennar sem bæði hylur skaut hennar á hlédrægan hátt og beinir athygli að þessum líkamsstað. Þessi staða hefur verið skilgreind „pudica“ og merkti upphaflega ótta og vörn konunnar gegn kynferðislegum árásarmanni en hefur í gegnum tíðina öðlast fyrrnefnda merkingu. Staðsetning handarinnar á þennan hátt á aukinheldur að vekja þrá hjá áhorfandanum.[10]  Nekt „Venusar“ er ekki einungis viðfang áhorfs karlmanna heldur staðfestir hún jafnframt þá hugmyndafræði karlaveldisins að konan sé nær náttúrunni heldur en hærri sviðum menningarinnar.[11] Nektin gerir hana því náttúrulegri, allt að dýrslega þó á siðsaman hátt. Telja má að myndbirting „Venusar“ sé samkvæmt þeim hugmyndum sem karlmenn höfðu um fagrar konur en hafa ber í huga að hugmyndin um fegurð er ætíð huglægt mat sérhvers einstaklings.[12]

Þjónustukonurnar tvær gegna ekki einungis myndbyggingarlegu hlutverki í málverkinu heldur eru þær einnig táknmynd þjónustuhlutverks konunnar auk þess sem þær leggja áherslu á stéttskiptingu og staðfesta að „Venus“ er af hástétt. Klæðnaður þeirra undirstrikar tilvist og tilgang þeirra í verkinu en ef þær hefðu einnig verið naktar hefði yfirbragð verksins orðið annað. Mikilvægi þeirra í myndefninu, þrátt fyrir að vera staðsettar aftarlega í myndrýminu, beinir því sjónum að félagslega skilyrtu hlutverki konunnar. Þannig varpar myndefnið skýru ljósi á þær hugmyndir karlmanna, í þessu tilfelli listmálarinn og kaupandinn, á fegurð kvenna en einnig stöðu og hlutverk þeirra á þeim tíma.

Athugið að á síðu 3 íkónografísk greining og á síðu 4 er marxísk greining

[1] Laurie Schneider Adams. Exploring Art. London: Laurence King Publishing Ltd, 2002. Bls. 143.; Anne D’Alleva. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005. Bls. 61.

[2] Auður Ólafsdóttir. Feminísk/kynjafræðileg greining. Glósur úr tíma 26. október 2010.

[3] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009. Bls. 506; 610-611. Til dæmis málaði Tiziano portrett af Isabella d‘Este, árin 1534-1536, sem bað um að ásýnd sín yrði ungleg þrátt fyrir að vera á þeim tíma á gamals aldri.

[4] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Bls. 610

[5] Sama

[6] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Bls. 611

[7] John Hale. The Thames and Hudson Encyclopaedia of the Italian Renaissance. London: Thames and Hudson, 1981. Bls. 122; 348. ; Margaret L King. Women of the Renaissance. Chicago: Chicago university press, 1991. Bls. 163-165; 169-171.

[8] Amelia Jones. „Every Man Knows Where and How Beauty Gives Him Pleasure.“ Í Art of Art History, ritstj. Donald Preziosi, bls. 375-390. Oxford: Oxford University Press, 1998. Bls. 378.

[9] Rodgers, David. „Nude“. Oxford Art online. 24. febrúar, 2010. http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T062999?q=nude&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#T063001 (Skoðað 30. október, 2010).

[10] Nanette Salomon. „The Art Historical Canon: Sins of Omission.“ Í Art of Art History, Ritstj. Donald Preziosi, bls. 344-355. Oxford: Oxford University Press, 1998. Bls. 354.

[11] Anne D’Alleva. Methods & Theories of Art History. Bls. 65.

[12] Amelia Jones. „Every Man Knows Where and How Beauty Gives Him Pleasure.“ Bls. 375.

Heimildaskrá

Adams, Laurie Schneider. Exploring Art. London: Laurence King Publishing Ltd, 2002.

Auður Ólafsdóttir. Feminísk/kynjafræðileg greining. Glósur úr tíma 26. október 2010.

D’Alleva, Anne. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005.

Gardner, Helen Louise. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009.

Hale, John. The Thames and Hudson Encyclopaedia of the Italian Renaissance. London: Thames and Hudson, 1981.

Jones, Amelia. „Every Man Knows Where and How Beauty Gives Him Pleasure.“ Í Art of Art History, ritstj. Donald Preziosi, bls. 375-390. Oxford: Oxford University Press, 1998.

King, Margaret L. Women of the Renaissance. Chicago: Chicago university press, 1991.

Rodgers, David. „Nude“. Oxford Art online. 24. febrúar, 2010. http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T062999?q=nude&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#T063001 (Skoðað 30. október, 2010).

Salomon, Nanette. „The Art Historical Canon: Sins of Omission.“ Í Art of Art History, Ritstj. Donald Preziosi, bls. 344-355. Oxford: Oxford University Press, 1998.

1 2 3 4
Share.

About Author

Eðli málsins samkvæmt er misjafnt hvaða nemendur vinna saman að hópverkefni hverju sinni. Nafna allra höfunda hvers verkefnis er getið efst á viðkomandi síðu.

Leave A Reply