Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

0

Myndgreiningarverkefni 3: íkónografísk greining
Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

Þetta verkefni er eftir Berglindi Helgadóttur og Katrínu Huld Bjarnadóttur

Creative Commons License Efnið er bundið höfundarétti eins og kveðið er á um hér: Creative Commons Attribution-NonCommercial 4.0 International License

Með íkónografískri greiningu  er stuðst við myndlestur táknmáls verks til greiningar myndefnis þess og innihaldi, hvort sem einblítt er á hluta verks eða verkið sem heild. Þar er fengist við viðfangið í verkinu í andstöðu við formið. Þar sem íkónografíu sleppir tekur íkónológía við með nánari greiningu og útskýringu á táknmáli myndverksins. Íkónológían setur það jafnframt í víðara menningarlegt samhengi þess samfélags sem verkið varð til í og dýpkar þar með greiningu verksins. Þannig verður nútíma íkónológísk greining til í þremur stigum, sem Panofsky lagði grunninn að. [1]

Listamaður: Tiziano (Titian 1490-1576)

Titill: Venus frá Urbino

Ár: 1538

Miðill: Olía á striga

Stærð:  119 x 165 cm (3′, 11” x 5′, 5”)

Varðveislustaður:  Galleria degli Uffizi, Flórens, Ítalía.[2]

Í málverkinu Venus frá Urbino gefur að líta unga, nakta konu liggjandi á sófa í herbergi sínu. Hún liggur afslöppuð með krosslagða fætur, hylur skaut sitt með hægri hendi og horfir blygðunarlaust í áttina til áhorfandans. Hana prýða armband, hringur og eyrnalokkur en í hægri hendi heldur hún á blómvendi. Til fóta sefur lítill hundur værðarlega en í hægra horni herbergisins eru tvær þernur; önnum kafnar, rótandi í kistlum, við að finna til föt á hina nöktu konu.  Bakvið „Venus“ er veggur þar sem hangir ríkulegt tjald úr flaueli og á veggjunum í hægra horni herbergisins hanga skrautleg veggteppi.

Aðalviðfangsefni listaverksins er nakta konan í forgrunni þess. Líkami hennar er ávalur og líkamsstaða hennar er afslöppuð; hún skammast sín ekki fyrir nekt sína og undirstrikar erótíska blíðu sína með beinu augnaráði. Ungur líkaminn og ljós húðin bera hvorki merki um harða vinnu né harðræði nokkurt og augljóst er að henni er þjónað af a.m.k. tveimur þjónustukonum.  Þær staðreyndir leiða líkur að því að þetta sé eiginkona eða hjákona eiganda heimilisins, herbergisins, sem hún er staðsett í. Þjónustukonurnar tvær, sem greinilega eru að finna til fatnað fyrir hana, róta í ríkmannlegum kistlum (cassoni) sem í verkinu tákna hjónaband.[3] Hundurinn, sem liggur til fóta „Venusar“, er oft talinn tákn tryggðar í listaverkum frá endurreisnartímanum. Hann hefur þó einnig verið túlkaður, í samhengi verksins, sem tákn kvenlegrar tælingar.[4] Sé sú túlkun höfð að leiðarljósi ásamt líkamstjáningu konunnar, má segja að það undirstriki tilætlun málverskins, þ.e. að eiginkonan/hjákonan þrái eiginmanninn sinn. Hún verður mannleg ástargyðja hans, „Venus“, og vísar þannig til goðsagnarinnar um ástargyðjuna Venus sem titill verksins er dreginn af og var gefinn verkinu eftirá.[5] (blómin, skartgripirnir)

Á hátindi ferils síns, árið 1538, málar Tiziano Venus frá Urbino sem hægt er að greina sem samtímamálverk þess tíma. Verkið var pantað af Guidobaldo II sem síðar varð hertogi yfir Urbino. Ekki eru til áreiðanlegar heimildir fyrir tilætlanir hans fyrir verkið en leiddar hafa verið líkur að því að það hafi átt að vera til einkasýningar og að nakta konan í verkinu hafi átt að sýna þá kosti sem Guidobaldo sóttist eftir að prýddu eiginkonuefni sitt.[6] Vísunina í hjónabandið og samtímann má finna í þeim ríkmannlegu kistlum sem önnur þjónustukonan rótar í. Kistlarnir, sem kallaðir eru cassoni, voru á tímum endurreisnarinnar  hefðbundnir brúðar- eða heimanmundarkistlar. Þeir undirstrikuðu sameiningu hjónabandsins þegar þeir komu í pörum og voru til marks um auð fjölskyldnanna sem sameinaðar voru með hjónabandinu.[7] Þannig undirstrikar Tiziano ekki einungis auðvald þess sem verkið pantar heldur einnig til inntaks þess, þ.e. vísunina í hjónabandið og ástina.

Aukinn áhugi á mannslíkamanum og fegurð nektarinnar jókst á tímum endurreisnarinnar á Ítalíu og náði þeirri fremd sem hún hefur haldið alla tíð síðan, allt fram á okkar tíma. Viðfangsefni skammlausrar, heiðnar nektar ruddi braut sína inn í goðsöguleg myndefni listamanna eins og Botticelli. Í verki Giorgione, Sofandi Venus, nær túlkun nektar og lostafylli kvenlíkamans nýjum hæðum erótikur sem stigóx í verkum hans sem og annarra listamanna sem fylgdu á eftir.[8] Með Venus frá Urbino tekst Tiziano að draga enn frekar athygli að lostafullum kvenlíkama „Venusar“ um leið og hann manngerir hana, þ.e. setur hana inn í samtímaumhverfi herbergisins. Tiziano hefur án vafa haft hina Sofandi Venus Girogione að fyrirmynd sinnar „Venusar“ sem berlega má sjá á líkamsgerð en einnig á líkamsstöðu þeirra, sem er nánast eins. Það sem skilur þær að er öðruvísi uppstilling hægri handleggs og sú staðreynd að „Venus“ Tizianos er glaðvakandi og starir munúðarlega til áhorfandans.[9]

„Venus“ er, í verki Tizianos, viðfang áhorfs sem vakið er athygli á með endurgoldnu augnaráði hennar þar sem hún liggur letilega á sófa sem undirstrikar þannig stöðu konunnar á tímum endurreisnarinnar. Miðað við þær rannsóknir og þá vitneskju sem aflað hefur verið hingað til, er hægt að draga þá ályktun að einungis fáar konur létu til sín taka í listheiminum á þeim tíma. Þær fáu konur sem öfluðu sér orðspors náðu því yfirleitt með aðstoð fjölskylduvensla og auðæfa, s.s. fyrir tilstuðlan feðra eða eiginmanna eins og t.d. Lavinia Fontana og Isabella d‘Este. Erfitt var fyrir konur að komast til metorða, vegna eigin ágæta, með öðrum hætti.[10] Vald feðraveldisins var ótvírætt sem gerði konur, í flestum tilfellum,  að hlutlausum viðföngum þess veldis sem myndgerist í óvirkri líkamsstöðu „Venusar“. Hún er viðfang aðgerðaleysis sem lýtur að vilja áhorfandans, feðraveldisins, sem í þessu tilfelli eru  kaupandi verksins og málari þess.

 Athugið að á síðu 4 er marxísk greining

[1] Anne D’Alleva. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005. Bls. 20-21.

Erwin Panofsky. Iconography and Iconology: An Introduction to the Study of Renaissance Art.” Í The Art of Art History: A Critical Anthology, ritstj. Donald Preziosi, bls. 220-235. New York: Oxford, 1998. Bls. 221-223.

[2] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009. Bls. 610.

[3] John F Pile. A history of interior design. London: Laurence King Publishing Ltd, 2005. Sótt 5. október af         Google books: http://books.google.is/books?id=2664tGWET-MC&pg=PA141&lpg=PA141&dq=cassone+AND+symbology&source=bl&ots=gwtp8cOOui&sig=NeaOjLBDm1lHCFXigdEiADygLVA&hl=is&ei=aVyrTNzZBJHpOdn85e4G&sa=X&oi=book_result&ct=result&resnum=5&ved=0CDQQ6AEwBA#v=onepage&q&f=false. Bls. 142.

[4] Simona Cohen. Animals as disguised symbols in Renaissance art. Leiden, Holland: Brill, 2008. Sótt 5. október af Google books: http://books.google.is/books?id=FOZVPjSTznwC&pg=PA136&lpg=PA136&dq=dog+AND+Symbology+AND+renaissance+art&source=bl&ots=MYDqlc19OM&sig=Dkbo3_neouDsr5FukyvjUyXsp8Q&hl=is&ei=8VKrTLT0H8WdOq-HxZQH&sa=X&oi=book_result&ct=result&resnum=6&ved=0CC0Q6AEwBQ#v=onepage&q&f=false. Bls. 137-138.

[5]  Helen Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Bls. 610.

[6] Sama og 5

[7] John F. Pile A history of interior design.  bls. 142.

[8] David Rodgers, Dimitris Plantzos. Nude.Oxford Art online. 24. febrúar, 2010. Sótt 5. október 2010: http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T062999?q=nude&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#T063001.

[9] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history.Bls. 610.

[10] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Bls. 611.

Heimildaskrá

Cohen, Simona. Animals as disguised symbols in Renaissance art. Leiden, Holland: Brill, 2008. Sótt 5. október af Google books: http://books.google.is/books?id=FOZVPjSTznwC&pg=PA136&lpg=PA136&dq=dog+AND+Symbology+AND+renaissance+art&source=bl&ots=MYDqlc19OM&sig=Dkbo3_neouDsr5FukyvjUyXsp8Q&hl=is&ei=8VKrTLT0H8WdOq-HxZQH&sa=X&oi=book_result&ct=result&resnum=6&ved=0CC0Q6AEwBQ#v=onepage&q&f=false

D’Alleva, Anne. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005.

Gardner, Helen Louise. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009.

Panofsky, Erwin. Iconography and Iconology: An Introduction to the Study of Renaissance Art.” Í The Art of Art History: A Critical Anthology, ritstj. Donald Preziosi, bls. 220-235. New York: Oxford, 1998.

Pile, John F. A history of interior design. London: Laurence King Publishing Ltd, 2005. Sótt 5. október af Google books: http://books.google.is/books?id=2664tGWET-MC&pg=PA141&lpg=PA141&dq=cassone+AND+symbology&source=bl&ots=gwtp8cOOui&sig=NeaOjLBDm1lHCFXigdEiADygLVA&hl=is&ei=aVyrTNzZBJHpOdn85e4G&sa=X&oi=book_result&ct=result&resnum=5&ved=0CDQQ6AEwBA#v=onepage&q&f=false

Rodgers, David., Plantzos, Dimitris. Nude.Oxford Art online. 24. febrúar, 2010. Sótt 5. október 2010: http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T062999?q=nude&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#T063001.

1 2 3 4
Share.

About Author

Eðli málsins samkvæmt er misjafnt hvaða nemendur vinna saman að hópverkefni hverju sinni. Nafna allra höfunda hvers verkefnis er getið efst á viðkomandi síðu.

Leave A Reply