Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

0

Myndgreiningarverkefni 4: marxísk greining
Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

Þetta verkefni er eftir Berglindi Helgadóttur og Katrínu Huld Bjarnadóttur

Creative Commons License Efnið er bundið höfundarétti eins og kveðið er á um hér: Creative Commons Attribution-NonCommercial 4.0 International License

Með marxískri listgreiningu er listaverk greint út frá sjónarhorni þess efnahagslega umhverfis samfélagsins sem það verður til í og hvernig samfélagið endurspeglast í listaverkinu. Greinandinn þarf jafnframt að hafa í huga stöðu listar í samfélagi þess tíma sem við á. Samkvæmt marxískri hugmyndafræði er þegnum þjóðfélagsins skipt upp í auðvald/borgara og öreiga/verkalýð. Í marxískri greiningu er því ekki litið á listina sem snilld heldur sem afurð flókinna víxláhrifa samfélags, pólitíkur og efnahags þess umhverfis og tíma sem það sprettur úr. Listin getur þannig nýst sem gluggi sem opnar efnahagslega en jafnframt sögulega sýn í myndbirtingu verksins.[1]

Á Ítalíu á endurreisnartímanum var efnahagurinn ekki einsleitur sökum þess að landið, sem þekkt er sem Ítalía í dag, var þá skipt upp í héruð eða eins konar lítil ríki. Afkoma þeirra var misjöfn en mörg hver þeirra byggðu þó á útflutningi varnings og bankastarfsemi.[2] Á 15. og 16. öld öðlaðist Urbino, ríki norð-austarlega á Ítalíu, menningarlegt mikilvægi, þrátt fyrir afskekkta staðsetningu og fátækt; m.a. undir stjórn Federigo da Montefeltro sem byggði t.d. Palazzo Ducale í Pesaro.[3]

Listamaður: Tiziano (Titian 1490-1576)

Titill: Venus frá Urbino

Ár: 1538

Miðill: Olía á striga

Stærð:  119 x 165 cm (3′, 11” x 5′, 5”)

Varðveislustaður:  Galleria degli Uffizi, Flórens, Ítalía.

Venus frá Urbino pantaði Guidobaldo II della Rovere árið 1538 af feneyska listmálaranum Tiziano. Málverkið sýnir unga, nakta konu, „Venus“, liggjandi á sófa, þvert yfir verkið, í ríkulegu samtímaherbergi þess tíma. Í efra hægra horni eru tvær þjónustukonur að taka til klæðnað fyrir hana úr kistlum sem eru staðsettir uppvið glugga þar sem myrtuplanta stendur í. Listaverkið var hið fyrsta, af mörgum, sem hann pantaði af listmálaranum en markaði jafnframt mikilvægan tímapunkt í lífi hans, þar sem hann var gerður að hertoga af Urbino ári síðar. Verkinu var ætlað að hanga í fataherbergi hans í Palazzo Ducale í Pesaro. Verkið var þó ekki hið fyrsta sem Tiziano málaði fyrir della Rovere fjölskylduna í Urbino en faðir Guidobaldo hafði áður pantað verk af honum.[4] Á þessu tímaskeiði endurreisnarinnar var auðvaldsmönnum orðið vel ljóst hvernig list gæti stuðlað að frægð og aukið hróður þeirra, þá sérstaklega listaverk frá þekktari listamönnum.[5]

Ítölsk list á há- og síðendurreisnartíma einkenndist ekki af ákveðnum einsleitum stíleinkennum heldur af einstakri tæknilegri og fagurfræðilegri færni. Listamenn öðluðust viðurkenningu fyrir verk sín í ríkara mæli og urðu nokkrir þeirra með eindæmum þekktir. Verk þeirra og vinna urðu eftirsótt víðsvegar um Evrópu.[6] Feneyskir listmálarar á 16. öld þróuðu með sér sérstakan stíl sem byggði á mildri litanotkun sem þykir endurspegla þá birtu sem fyrirfinnst í vatnaborginni Feneyjum og er aðgreinandi frá öðrum stöðum þess tíma á Ítalíu, t.d. frá Róm og Flórens.[7] Tiziano var einna afkastamestur af feneysku listmálurunum og var talinn búa yfir afburðar hæfni í meðförum lita. Hann var þekktur og eftirsóttur um gervalla Evrópu, á meðan hann lifði, fyrir portrettverk sín sem og málverk í goðsögulegum og trúarlegum stíl.[8]

„Venus“ í Venus frá Urbino er staðsett í samtímaumhverfi þess tíma og er þjónað af a.m.k. tveimur þjónustukonum. Herbergið er innréttað með ríkulegum veggteppum, fínu rúmlíni og þjónustukonurnar tvær róta í kistlum er kölluðust cassoni. Kistlar þessir voru á tímum endurreisnarinnar brúðar- eða heimanmundarkistlar og voru til marks um auð fjölskyldnanna sem sameinaðar voru með hjónabandi.[9] Samtímaumhverfið, sem myndgert er í verkinu, ber með sér ríkidæmi þess sem það pantar: Guidobaldo. Til að vekja athygli á stöðu „Venusar“, þ.e. að hún er af hærri stétt, er gert með því að sýna tvær aðrar konur sem augljóslega eru að þjóna henni. Fjarlægð þeirra í rými verksins er nægileg til að þær og verknaður þeirra séu greinanleg án þess þó að þörf sé á að sýna nákvæmlega smáatriði útlits þeirra auk þess sem andlit þeirra vísar frá áhorfandanum. Það eru því ekki konurnar sjálfar heldur verknaður þeirra sem er mikilvægur til að undirstrika skilaboð verksins, þar sem þær eru að tína til föt, fyrir hina nöktu konu. Verknaðurinn speglar aftur á móti stéttastöðu þeirra, þær eru þjónar og athygli á ekki að beinast að þeim. Nakinn líkami „Venusar“, aðalviðfangsefni verksins sem athyglinni er beint að, er lýtalaus og ljós húðin ber engin merki vinnu og auk þess ber hún skartgripi.

Með listaverkinu hefur Guidobaldo ætlað sér að sýna vald sitt og auð til þess að styrkja orðspor sitt. Hin goðsögulega „Venus“ er manngerð myndbirting valds um leið og hún er undirgefin því. Með vísun í goðsögulegt myndefni „Venusar“, sem greinilega er hærra sett en aðrar fígúrur verksins, er valdið myndgert en með augnaráði hennar undirstrikar hún undirgefni við valdið. Óvirk staða hennar, þar sem hún lætur þjóna sér, gefur einnig til kynna undirgefni hennar. Þegar táknmynd eilífðarinnar, hin sígræna myrtuplanta, er sett í samhengi við birtingarmynd valds í verkinu getur það aukinheldur táknað löngun til eilífs eða mikils valds. Val Guidobaldo á listamanni hefur heldur ekki verið tilviljanakennt þar sem Tiziano var þá þegar þekktur sem listmálari sem bar af í þjóðfélaginu auk þess sem hann hafði starfað fyrir föður Guidobaldos.[10] Sýningarstaður verksins og stærð þess ber það með sér að Guidobaldo hafi ætlað það til sýnis fleirum en einungis sjálfum sér þó svo að hver sem væri hefði ekki aðgang að því að öllu jöfnu. Því má áætla að hann hafi sýnt það valdameiri mönnum en stærð verksins er ekki aukvisilegt, svo stórt er það, að ekki hefur það rúmast fyrir í kytru neinni og hefur átt að vekja hrifningu þeirra sem það sáu. Venus af Urbino er ekki hefðbundið portrettverk enda tilgangur þess dýpri heldur en eign til minningar.

 

[1] Anne D’Alleva, Anne. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005. Bls.54 Laurie Schneider Adams. Exploring Art. London: Laurence King Publishing Ltd, 2002. Bls.143.

[2] John Hale. The Thames and Hudson Encyclopaedia of the Italian Renaissance. London: Thames and Hudson, 1981. Bls.120.

[3] Sama rit. Bls.324.

Francesco Paolo Fiore og fleiri. „Urbino“. Í Grove art online. Oxford art online. 31. mars, 2000. http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T087342?q=urbino&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#firsthit (skoðað 19. október, 2010).

[4] Hellmut Wohl og Sabine Eiche. „Rovere, della (i)“ Í Grove art online. Oxford art online. Án dagsetningar.  http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T074235pg4?q=guidobaldo+&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#firsthit (skoðað 19. október, 2010).

[5] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009. Bls.611.

[6] Sama rit. Bls.579.

[7] Sama rit. Bls.604.

[8] Sama rit. Bls.607; John Hale. The Thames and Hudson Encyclopaedia of the Italian Renaissance. Bls.316.

[9] John F. Pile. A history of interior design. London: Laurence King Publishing Ltd, 2005. Bls.142.

[10] Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Bls.610-611.

Cecil Gould. „Titian“. Í Grove art online. Oxford art online. 31. mars, 2000. http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T085242?q=titian&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#firsthit (skoðað 19. október, 2010).

Heimildaskrá

Adams, Laurie Schneider. Exploring Art. London: Laurence King Publishing Ltd, 2002.

D’Alleva, Anne. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005.

Gardner, Helen Louise. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009.

Gould, Cecil. „Titian“. Í Grove art online. Oxford art online. 31. mars, 2000. http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T085242?q=titian&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#firsthit (skoðað 19. október, 2010).

Hale, John. The Thames and Hudson Encyclopaedia of the Italian Renaissance. London: Thames and Hudson, 1981.

Paolo Fiore, Francesco og fleiri. „Urbino“. Í Grove art online. Oxford art online. 31. mars, 2000. http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T087342?q=urbino&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#firsthit (skoðað 19. október, 2010).

Pile, John F. A history of interior design. London: Laurence King Publishing Ltd, 2005.

Wohl, Hellmut, Sabine Eiche. „Rovere, della (i)“ Í Grove art online. Oxford art online. Án dagsetningar.  http://www.oxfordartonline.com/subscriber/article/grove/art/T074235pg4?q=guidobaldo+&hbutton_search.x=0&hbutton_search.y=0&hbutton_search=search&source=oao_gao&source=oao_t118&source=oao_t234&source=oao_t4&search=quick&pos=1&_start=1#firsthit (skoðað 19. október, 2010).

 

 

 

 

1 2 3 4
Share.

About Author

Eðli málsins samkvæmt er misjafnt hvaða nemendur vinna saman að hópverkefni hverju sinni. Nafna allra höfunda hvers verkefnis er getið efst á viðkomandi síðu.

Leave A Reply