Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

0

Þær Berglind Helgadóttir og Katrín Huld Bjarnadóttir beita hér fyrir sig fjórum mismunandi sjónarhornum aðferðafræði í Listfræði, til að greina listaverkið Venus frá Urbino. Það er mjög fróðlegt að sjá sama listaverkið greint út frá misjöfnum forsendum. Greiningarnar koma hér í eftirfarandi röð á fjórum síðum; Formalísk greining, feminísk/kynjafræðileg greining, íkónografísk greining og marxísk greining.

Verkefnin voru unnin í BA-námi í Listfræði 2010.

Höfundar efnis: Berglind Helgadóttir og Katrín Huld Bjarnadóttir

Creative Commons License Efnið er bundið höfundarétti eins og kveðið er á um hér: Creative Commons Attribution-NonCommercial 4.0 International License.

Myndgreiningarverkefni 1: formalísk greining
Venus frá Urbino eftir Tiziano (Titian)

Í formalískri greiningu víkur aðaláhersla á myndefni fyrir forminu og gengið er út frá því að
verkið sé sjálfstæð heild og hverfist um sjálft sig. Listaverk eru greind út frá samsetningu
myndrænna þátta s.s. myndbyggingu, línum, litum og formum sem samtímis leiða að
greiningu þar sem flétt er ofan af reglugerð verksins með því markmiði að afhjúpa tilgang
listamannsins.1

Venus

Í Venus frá Urbino eftir Titian beinist sjónarhorn áhorfandans að svefnherbergi ungrar meyjar,
„Venusar“, sem er aðalviðfangsefni málverksins, undirstrikað við myndlestur frá vinstri til
hægri. Þvert yfir málverkið er liggjandi ung, nakin kona á rauðum sófa sveipuðum hvítu klæði
þar sem hún hvílir efri hluta líkamans á hvítum púðum og ljóst hárið liðast niður afslappaðar
axlirnar. Hún er með krosslagðar fætur, hylur sköp sín með vinstri hendi og horfir beint til
áhorfandans. Þrátt fyrir að vera nakin ber hún á hægri hendi armband og heldur á blómum, á
litla fingri vinstri handar má sjá hring og í vinstra eyra hangir eyrnalokkur. Við fætur hennar
liggur lítill hundur og sefur værðarlega. Hann gegnir hlutverki jafnvægis í myndbyggingunni
og er skapandi afl í yfirbragði rósemdar verksins. Á ofanverðum vinstri helming, bak við efri
hluta líkama Venusar, er veggur sem skiptir upp rýminu með þeim afleiðingum að
áhorfandinn sér ekki allt herbergið. Á veggnum hangir þykkt, dökkgrænt tjald sem dregið er
til vinstri með rykkingum þannig að fellingar myndast í efninu. Í efra hægra horni eru tvær
önnum kafnar konur; önnur þeirra stendur í rauðum kjól og ljósri skyrtu með kjól á vinstri öxl
á meðan hin krýpur í hvítum kjól við kistil og snýr baki í áhorfandann. Bakvið þær prýða
veggina fagurlega skreytt veggteppi. Vinstra megin við konurnar tvær er hluti af glugga sem
skipt er upp með súlu og er pottaplanta hægra megin en til vinstri blasa við tré í fjarska með
himininn í bakgrunn.

Málverkið einkennist af notkun mildra, blandaðra lita sem leiða af sér ákveðið yfirbragð
kyrrðar. Ríkjandi litir í verkinu eru rauður og ýmis blæbrigði af ljósum, beinhvítum og
brúntóna lit en grænn litur spilar veigamikið hlutverk í myndbyggingu verksins þó lítill sé.
Dökkgræni litur veggtjaldsins dregur athygli að aðalviðfangsefninu vegna samsetningar sinnar
við ljósa liti líkamans og línsins annars vegar og rauða áklæðisins í sófanum hins vegar. Rétt
ber á bláa litnum sem sýnir himininn en af frumlitunum er guli nánast útilokaður.
Litasamsetning sú sem birtist í neðra vinstra horni endurtekur sig í efra hægra horni og skapar
samtímis tilfinningu fyrir fjarlægð. Litasamsetningin samanstendur af rauðum lit
sófaáklæðisins, hvíta áklæðinu sem sveipar hann auk húðlitar Venusar og er í samhljómi við
samsetningu rauða og hvíta kjóla hinna tveggja kvennanna, auk litasamsetningar í
veggáklæði.

Í verkinu má finna margar sýnilegar sem og ósýnilegar línur. Bæði „Venus“ og sófinn,
sem hún liggur á í forgrunni, undirstrika lárétta línu í verkinu. Málverkinu er skipt fyrir miðju
með lóðréttri og skarpri línu myndaðri af vegg en þessar tvær línur sameinast í krossi yfir
klofi Venusar. Aðrar lóð- og láréttar línur má finna t.d. í glugganum, veggteppunum og
kistlunum en þær endurspeglast í köflóttu mynstri gólfflatarins. Auk þessara lína má finna
skálínur í málverkinu sem skipta því upp á ósýnilegan hátt. Ein er mynduð með líkama
Venusar og skiptir verkinu upp í tvo þríhyrninga. Önnur skálína myndast á milli rauðu litanna
í for- og bakgrunni og myndar hún kross við hina fyrri skálínu. Samsíða skálínu rauðu litanna
má draga skálínu frá augum standandi konunnar og liggur hún í gegnum klof Venusar.
Sameinað form kvennanna tveggja í horninu býr til þríhyrning. Hinar bogadregnu línur líkama
Venusar samasvara bogadregnum fellingum tjaldsins sem hangir á bakvið hana og mynda
mótvægi við fyrrtaldar beinar línur verksins. Form málverksins eru þó ekki skilgreind með
dregnum línum heldur skyggingu.

Fjarvídd er sköpuð bæði með stærð og litum á meðan birta og skygging skapar þrívíð áhrif.
Rýmið opnast til hægri og fjarvídd mynduð með stærð fígúratívu persónanna. Líkami Venusar
er t.a.m. mun stærri heldur en líkamar kvennanna tveggja og vekur rauði liturinn athygli á
fjarlægðinni. Smæð og skýrleiki mynsturs sófaáklæðisins í andstöðu við óskýrara mynstur
veggteppanna undirstrikar jafnframt fjarlægðina sem gefin er í skyn á milli tveggja horna
verksins. Ljósi er greinilega beint að líkama Venusar en jafnframt virðist birtu stafa af ljósi
aftan við vegginn, sem skilur myndina í tvennt, og sést á skuggamyndun standandi konunnar.
Auk lýsingarinnar eykur skyggingin áhrif þrívíddar, t.d. í ávölum línum líkama „Venusar“
sem og styttingar hægri fótar hans sem náð er fram með skyggingu.

Myndbygging og áhrif verksins Venus frá Urbino ræðst af samsetningu og blöndun lita í
skuggateikningu. Litanotkunin dregur athygli að aðalviðfangsefni verksins, nöktum líkama
„Venusar“, um leið og hún skapar ákveðið yfirbragð værðar og tilfinningu rósemdar. Þrátt
fyrir að málverkið sé nektarmynd er athygli dregin frá því inntaki með því að setja inn
aukapersónur í formi annarra kvenna og hundsins. Litanotkunin undirstrikar einnig fjarvídd
og þrívídd sem skapað er í rými verksins. Því er skipt upp í nokkra hluta með bæði augljósum
sem og ósýnilegum línum sem gerir það að verkum að málverkinu er jafnframt hægt að skipta
upp í tvö sjálfstæð verk; nektarmyndina og önnum kafnar konurnar tvær. Sjónræn áhrif og
upplifun af verkinu sjálfu er breytileg og ræðst af gæðum myndbirtingar t.d. með tilliti til
stærðar verksins, birtustigs og skýrleika.

Athugið að á síðu 2 er feminísk/kynjafræðileg greining, síðu 3 íkónografísk greining og á síðu 4 er marxísk greining.

1 Anne D’Alleva. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing, 2005. Bls. 17-18.
2Helen Louise Gardner. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13. útgáfa. Boston:
Thomson/Wadsworth, 2009. Bls. 610.

Heimildaskrá
D’Alleva, Anne. Methods & Theories of Art History. London: Laurence King Publishing,
2005.
Gardner, Helen Louise. Gardner’s Art through the ages. A global history. Fred S. Kleiner. 13.
útgáfa. Boston: Thomson/Wadsworth, 2009.
Tiziano (Titian). Venus frá Urbino. Olía á striga. Galleria degli Uffizi, Flórens, Ítalía. 1538. Mynd
tekin af vefsíðu Oneonta háskóla New York þann 21. september 2010: http://employees.oneonta.edu/farberas/arth/Images/110images/sl9images/Titian_Venus_Urbin
o.jpg

1 2 3 4
Share.

About Author

Eðli málsins samkvæmt er misjafnt hvaða nemendur vinna saman að hópverkefni hverju sinni. Nafna allra höfunda hvers verkefnis er getið efst á viðkomandi síðu.

Leave A Reply